Sameinuðu þjóðirnar eru alþjóðleg samtök ríkja sem hafa sameinast um að vinna að friði og þróun í heiminum. Samtökin voru stofnuð eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, 24. október 1945, þegar mörg lönd komu saman til að vinna að varanlegum friði í heiminum með auknu alþjóðlegu samstarfi. Í upphafi voru 51 aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum en í dag er fjöldi aðildarríkja orðinn 193. Sameinuðu þjóðirnar eru alþjóðlegur vettvangur fyrir samstarf og samninga um málefni sem eru mikilvæg fyrir allt mannkyn. Ríkjum er frjálst að taka þátt og frjálst að gerast aðilar að hinum ýmsu samningum. Hins vegar eru allir meðlimir skyldugir til að fylgja stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur í alþjóðlegum samskiptum.
Markmið Sameinuðu þjóðanna:
Lestu sáttmála Sameinuðu þjóðanna hér.
Hvað er sáttmáli?
Til þess að skilgreina og átta sig á mannréttindum hafa Sameinuðu þjóðirnar samþykkt fjölda yfirlýsinga og samninga. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt árið 1948. Þrátt fyrir að í yfirlýsingunni greinir skýrt á um að mannréttindi eigi við um bæði konur og karla var mismunun gagnvart konum útbreidd þegar mannréttindayfirlýsingin var samþykkt. Barátta kvenréttindahreyfingarinnar fyrir réttindum kvenna um allan heim leiddi til þess að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu með sérstökum sáttmála að tryggja réttindi kvenna. Sá sáttmáli heitir Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og var hann samþykktur árið 1979.
Sáttmálar eru ein tegund af samningi. Öll ríki sem hafa undirritað sáttmála eru skyldug til að fylgja því sem í honum stendur. Ríki eru einnig skyldug til að gefa reglulega skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um hvernig þau standa undir sáttmálunum. Skýrslurnar sem snúa að kvennasáttmálanum heyra undir nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW – Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women). Verkefni nefndarinnar er að kanna hvað lönd eru að gera til að tryggja réttindi kvenna. Þegar ríki hefur undirritað sáttmála getur það undanskilið sig að ákveðnum hlutum eða greinum hans, að því tilskildu að það fari ekki gegn helstu markmiðum sáttmálans.
Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum, einnig þekktur sem kvennasáttmálinn, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1979. Samningurinn miðar að því að útrýma hvers konar mismunun gagnvart konum og að konur nái fullum réttindum og frelsi á jafnréttisgrundvelli við karla.
Kvennasáttmálinn er grundvallaryfirlýsing sem fylgt er eftir með 16 greinum sem varpa ljósi á réttindi kvenna, eins og til dæmis réttinn til menntunar, réttinn til vinnu og réttinn yfir eigin líkama og heilsu.
1. grein – Skilgreining á mismunun
„Mismunun gagnvart konum“ er hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir mannréttindi kvenna og grundvallarfrelsi kvenna á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði.
2. grein – Skylda til að útrýma mismunun gagnvart konum
Aðildarríkin eru skyldug til að útrýma mismunun gagnvart konum, m.a. með því:
3. grein – Þróun og framfarir
Aðildarríkin ábyrgjast fulla þróun og framfarir til handa konum til að tryggja að þær njóti mannréttinda og grundvallarfrelsis á til jafns við karla á öllum sviðum, sérstaklega á sviði stjórnmála, félagsmála, efnahags og menningar.
4. grein – Tímabundnar aðgerðir
Til að ná fram jafnrétti geta aðildarríkin gripið til sérstakra bráðabirgðaráðstafana sem miða að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist, t.d. með kynjakvótum. Þessar ráðstafanir skulu felldar niður þegar jafnrétti hefur náðst.
5. grein – Staðalímyndir um kynjahlutverk
Aðildarríkin skuldbinda sig til að breyta félagslegum og menningarlegum venjum sem styrkja hugmyndir um vanmátt eða ofurmátt annars hvors kynsins eða viðtekin hlutverk karla og kvenna. Aðildarríkin skulu viðurkenna sameiginlega ábyrgð karla og kvenna á uppeldi og þroska barna sinna.
6. grein – Vændi og mansal
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. með lagasetningu, til að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi kvenna.
7. grein – Pólitískur og opinber vettvangur
Aðildarríkin skulu afnema mismunun gagnvart konum á stjórnmálavettvangi og opinberum vettvangi í landinu. Konur skulu hafa sömu möguleika og karlar til að komast til valda í stjórnmálum, starfa á opinberum vettvangi og taka þátt í störfum stjórnmálaflokka.
8. grein – Störf á alþjóðavettvangi
Aðildarríkin tryggja konum tækifæri til þess að koma fram fyrir hönd ríkisstjórna sinna á alþjóðavettvangi og taka þátt í störfum alþjóðastofnana.
9. grein – Þjóðerni
Aðildarríkin skulu veita konum sömu réttindi og körlum til þess að öðlast, breyta eða halda þjóðerni sínu. Konur skulu hafa sömu réttindi og karlar varðandi þjóðerni barna þeirra.
10. grein – Menntun
Aðildarríkin skulu tryggja konum sömu réttindi og körlum á sviði menntunar, sama aðgang að námi og námsstyrkjum, sömu tækifæri til þess að taka virkan þátt í íþróttum og líkamsrækt. Ríkin skulu lækka hlutfall þeirra stúlkna sem hætta námi og stuðla að útrýmingu viðtekinna hugmynda um hlutverk karla og kvenna, t.d. með endurskoðun kennslubóka.
11. grein – Atvinnulíf
Aðildarríkin skulu afnema mismunun gagnvart konum á sviði atvinnu. Konur hafa rétt til sömu atvinnutækifæra og karlar, þar með talið að beitt sé sama mælikvarða við val starfsmanna. Konur hafa rétt til sömu launa og karlar þegar þau vinna sambærileg störf. Konur hafa sama rétt og karlar að fá bætur þegar þær hætta störfum vegna atvinnuleysis, veikinda og örorku, og sama rétt til orlofs og ellilífeyris. Konur hafa sama rétt og karlar til að starfa við öryggi á vinnustað. Konur sem eiga von á barni eiga rétt á sérstakri vernd við störf sem eru þeim skaðleg. Bannað er að reka konu úr starfi ef hún verður ólétt, eða ef hún giftir sig, eða ef hún er fjarverandi vegna barnsburðar. Konur eiga rétt á fæðingarorlofi. Aðildarríkin skulu tryggja barnagæslu, t.d. leikskóla, svo að foreldrar hafi tækifæri til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
12. grein – Heilsugæsla
Aðildarríkin skulu tryggja jafnan aðgang kvenna á við karla að heilsugæsluþjónustu. Konur eiga rétt á upplýsingum um getnaðarvarnir. Aðildarríkin skulu tryggja konum viðeigandi þjónustu í sambandi við þungun, barnsburð og tímabilið eftir fæðingu, og fullnægjandi næringu á meðgöngutímanum og brjóstgjafartímanum.
13. grein – Félags- og efnahagsleg aðstoð
Aðildarríkin skulu tryggja konum sömu réttindi og körlum til fjölskyldubóta, bankalána og annarra lána. Konur skulu hafa sama rétt og karlar til þess að taka þátt í tómstundastörfum, íþróttum og öllum greinum menningarlífs.
14. grein – Konur í dreifbýli
Konur á landsbyggðinni skulu hafa sömu réttindi og konur í borgum og bæjum. Konur á landsbyggðinni hafa rétt til að taka þátt í og hafa hag af þróun í dreifbýli. Þær eiga rétt til þess að eiga aðgang að viðunandi heilsugæslu, almannatryggingum, menntun, lánsviðskiptum, félagsstörfum, og mannsæmandi lífsskilyrða.
15. grein – Jafnrétti að lögum
Konur og karlar skulu vera jöfn að lögum, og konum og körlum skulu veitt sama meðhöndlun á öllum stigum dómsmeðferðar. Konur og karlar hafa sama rétt til að gera samninga og ráðstafa eignum, og frelsi til að velja sér dvalarstað.
16. grein – Hjúskapur og fjölskyldulíf
Konur hafa sama rétt og karlar til að stofna til hjúskapar og til að velja sér maka. Konur skulu bara giftast þeim sem þær vilja sjálfar. Konur og karlar hafa sömu réttindi og skyldur meðan þau eru gift og þegar þau eru skilin. Konur og karlar hafa sömu réttindi og skyldur sem foreldrar, hvort sem þau eru gift eða ógift, í málum sem varðar börnin þeirra. Börn skal hvorki trúlofa né gifta.
Hér getur þú lesið kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna í heild sinni, og einnig ýmsan fróðleik um sáttmálann.
Til þess að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna og jafnrétti kynjanna þarf áþreifanlegar ráðstafanir til að bæta aðstæður kvenna. Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið fjórar alþjóðlegar ráðstefnur um réttindi kvenna. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Mexíkó 1975, svo í Kaupmannahöfn 1980 og í Kenía 1985. Fjórða alþjóðlega ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna var haldin í Peking árið 1995. Þar var samþykkt sérstök framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna.
Kvennasáttmálinn segir aðildarríkjum hvað þeim beri að gera, en Pekingáætlunin segir þeim hvernig því skuli áorkað.
Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um 12 áherslur sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skulu vinna markvisst að, til að hraða framþróun í réttindum kvenna og jafnrétti kynjanna um allan heim.
Þessi málaflokkar eru:
Pekingáætlunin hefur ekki verið þýdd á íslensku, en hægt er að lesa hana á ensku hér.
Lesið Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér.
Lesið Peking-áætlunina á ensku hér.
UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu kvenna og jafnréttis um heim allan. Lestu meira hér.