Að uppræta fátækt er eitt af mikilvægustu markmiðum fyrir framþróun heimsins. Fleiri konur en karlar lifa í fátækt út um allan heim. Á síðasta áratug hefur fjöldi kvenna sem búa við fátækt aukist, sérstaklega í þróunarlöndum. Konur skipa 70 prósent þeirra sem lifa við mesta fátækt og nýta aðeins 1 prósent af auðlindum jarðar. Meirihluti kvenna fær aðeins 3/4 af launum karla. Það á við í bæði ríkari löndum og þróunarlöndum.
Hér á Íslandi eru ungar konur sá hópur sem á í mestri hættu að búa við fátækt. Einn hópur sem verður sérstaklega fyrir áhrifum af aukinni fátækt eru einstæðir foreldrar, sem eru í meirihluta konur.
Margar konur vinna í hlutastarfi til að sjá um heimili og börn. Vegna þessa eru konur oft með lægri tekjur en karlar. Þær hafa þannig oft lægri lífeyri vegna þess að lífeyrisgreiðslur byggjast á því hversu mikið þú hefur unnið yfir ævina.
Þegar ríki taka ákvarðanir um fjármál og hagkerfisstjórnun beita þau oft líkönum sem meta áhrif efnahagsstefna á þjóðarhag. En vandamálið er að þess lags líkön taka aðeins tillit til launaðra starfa en ekki til starfa sem einstaklingar vinna án launa, eins og heimilisstörf og umönnun fjölskyldu og vina. Tölfræðin sýnir okkur að konur vinna meginþorra ólaunaðra starfa. Þrátt fyrir að ólaunuð störf séu ekki hluti af efnahagslíkönum þá eru þau undirstaða vinnumarkaðarins og hagkerfisins. Ef við lítum ekki á ólaunuð störf þegar við ákveðum efnahagsstefnu skapast óréttlæti.
Fyrir nokkrum árum skall á kreppa í efnahagskerfum um allan heim. Þegar hagkerfi rýrna og ríki þurfa að skera niður í ríkisrekstrinum bitnar sá niðurskurður oft á skólamálum og velferðarmálum. Þetta hefur mikil áhrif á bæði þær konur sem starfa innan þessara greina, en einnig þær konur sem taka á sig umönnun barna, aldraðra og sjúklinga þegar þau eru send heim. Efnahagsþrengingar geta leitt til þess að fátækt kvenna aukist.
Samkvæmt skýrslu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) sem gefin var út 7. mars 2019 verja konur á hverjum degi 4 klukkustundum og 25 mínútum í ólaunuð heimilisstörf en karlar 1 klukkustund og 23 mínútur.
Heimild: Alþjóða vinnumálastofnun (ILO), 2019
Konur vinna í meira mæli hlutastörf en karlar, en 34,6% þeirra voru í hlutastarfi árið 2018 samanborið við 13,5% karla.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2018
Óleiðréttur launamunur kynjanna var 15,3% árið 2017.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2017
Árið 2017 voru háskólamenntaðar konur með 72% af meðalatvinnutekjum karla með sömu menntun.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2017
Konur eru í meiri hættu á fátækt en karlar sérstaklega vegna misréttis hvað varðar tekjur og skiptingu ólaunaðrar vinnu.
Heimild: UN Women, 2017
Umræður
Hvers vegna gerum við ráð fyrir því að konur taki ábyrgð á börnum og heimilisstörfum?
Hvers vegna heldur þú að ólaunuð vinna sé ekki metin að verðleikum við launaða vinnu?
Hvers vegna er það mikilvægt að karlar og konur deili ólaunaðri vinnu inni á heimilinu?
Hvernig er hægt að deila barnauppeldi og heimilisstörfum með jafnari hætti milli karla og kvenna?
Hvað er nauðsynlegt að gera til að auka jafnrétti í þessum efnum?
Verg landsframleiðsla (VLF) er mælikvarði á heildaratvinnustarfsemi í hverju landi. Þegar landsframleiðsla er reiknuð er ólaunuð vinna kvenna ekki reiknuð með. Hversu mikið myndi landsframleiðsla Íslands hækka ef ólaunuð vinna kvenna væri tekin með?
Athugið hvaða stefnu stjórnmálaflokkarnir sem eiga sæti á Alþingi vilja taka til að minnka fátækt. Athugið stefnuskrár flokkanna á vefsíðum þeirra og frumvörp sem flokkarnir hafa lagt fram á Alþingi á heimasíðu Alþingis.
Skoðið hvernig efnahagsástand einstæðra mæðra á Íslandi hefur breyst á síðustu 10 árum. Reyndu að finna viðeigandi tölfræði. Hverjar eru niðurstöðurnar?
Taktu viðtal við ellilífeyrisþega. Hve mikið þéna ellilífeyrisþegar að meðaltali? Settu upp mánaðarlega kostnaðaráætlun. Hverjir eru stærstu þættir í lífi konu sem ákvarða lífeyri hennar?
Spil: Lífslaunin
Þú þarft: Spilaborðið, tening, að minnsta kosti einn spilafélaga, smáhlut sem þú getur notað sem spilakall.
Gangur spilsins: Kastaðu teningnum og farðu eins mörg skref áfram og teningurinn sýnir. Fylgdu leiðbeiningunum sem standa á þeim reit sem þú lendir á.
Farðu tilbaka:
Þú ert 29 ára gömul kona, átt engin börn og hefur nýlokið háskólanámi. Þú ert tilbúin til að fara út á vinnumarkaðinn og sækir um störf á fullu. Þú færð að lokum viðtal sem þú telur að hafi gengið mjög vel. En því miður, þú munt ekki fá starfið vegna þess að vinnuveitandinn hefur áhyggjur af því að þú munir eignast börn og fara í fæðingarorlof fljótlega, sem kostar of mikið fyrir fyrirtækið. Þú þarft að bíða tvær umferðir.
Þú ert 32 ára gömul kona, ólétt og ferð í fæðingarorlof fljótlega. Skyndilega er þér ekki lengur boðið á pöbbinn með vinnufélögum eftir vinnu. Vinnuveitandinn hefur þig ekki í huga þegar losnar staða sem skrifstofustjóri. Þú þarft að bíða eina umferð.
Þú ert 52 ára gömul kona sem vinnur hjá opinberri stofnun. Ríkisstjórnin hefur nýlega hafið niðurskurð í rekstri sínum. Þú ert rekin. Farðu tilbaka á “Fátækt” og bíddu eina umferð.
Þú ert 65 ára gömul kona undir miklu álagi og hlakkar því til starfsloka. En þar sem þú ert kona áttu rétt á lægri lífeyri en karlkyns starfsfélagar þínir sem hafa unnið lengur. Farðu tilbaka á “Fátækt” og bíddu eina umferð.
Þú hefur eignast börn og til þess að samræma heimili, börn og vinnu byrjar þú að vinna í hlutastarfi. Það er samt betra að þú gerir þetta í stað mannsins þíns, vegna þess að tekjur hans eru hærri. Farðu þrjú skref til baka.
Þú ert 55 ára gömul kona, börnin eru farin að heiman og þú vinnur fulla vinnu. Skyndilega veikist öldruð móðir þín og það er löng bið eftir plássi á hjúkrunarheimili. Til að hjálpa mömmu þinni minnkar þú vinnuhlutfall þitt. Farðu tilbaka á “Fátækt”.
Farðu áfram:
Vinnuveitandi þinn viðurkennir að það sé vandamál að meirihluti þeirra sem eru í hlutastarfi á vinnustaðnum eru konur. Breytingar eru gerðar á stefnu fyrirtækisins til að tryggja fullan vinnutíma fyrir alla og öllum er gefið tækifæri til að vinna hlutastarf. Stór hluti kvenna eru nú í fullu starfi og hefur þannig betri möguleika að fá sama ellilífeyri og karlkyns samstarfsmenn. Kastaðu aftur.
Sveitarfélagið þitt hefur lagt umtalsvert fjármagn til jafnréttismála í árlegri fjárhagsáætlun þess. Með skýrum kynjasjónarmiðum í efnahagsmálum hefst mikilvæg vinna við að endurúthluta auðlindum í sveitarfélaginu þannig að það stuðli að jafnri og sanngjarnri dreifingu milli kvenna og karla. Farðu tvö skref áfram.
Konur á Íslandi fá að meðaltali 67% af launum karla. Íslenska ríkisstjórnin hefur því ákveðið að breyta þessu og einbeita sér að því að draga úr tekjubili milli kvenna og karla. Kastaðu aftur.
Spurningar:
Við hvert rétt svar má kasta aftur
1. Hver var óleiðréttur launamunur kynjanna árið 2017?
A. 10 %
B. 15 %
C. 20 %
2. Hverjar voru meðalatvinnutekjur kvenna með háskólamenntun af meðalatvinnutekjum karla með sömu menntun árið 2017?
A. 72 %
B. 74 %
C. 76 %
3. Hversu hátt hlutfall kvenna voru kjörnar á Alþingi árið 2017?
A. 38 %
B. 39 %
C. 41 %
4. Hversu hátt hlutfall kvenna störfuðu sem framkvæmdastjórar fyrirtækja árið 2017?
A. 22 %
B. 36 %
C. 49 %
5. Hversu hátt hlutfall þeirra sem tóku fæðingarorlof voru karlar árið 2017?