Þetta námsefni er ætlað til kennslu á framhaldsskólastigi. Námsefnið byggir á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálanum.

Málefni:

Kvennasáttmálinn & aðgerðaáætlunin frá Peking Konur & fátækt Líkami, kynferði & heilsa Atvinnulífið, launajafnrétti, menntun & starfsframi Ofbeldi gegn konum & stúlkum Umhverfi & loftslag Konur & heilsufar Konur & vopnuð átök Konur við stjórnvölinn Flóttamenn & fólksflutningar Fjölmiðlar & menning Femínismi

3. Líkami, kynferði og heilsa

Réttur kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama, kynhneigð, meðgöngu, barneignum og til að hafa frjálsan aðgang að getnaðarvörnum og fóstureyðingum er mikilvægur hluti þess að skapa samfélag sem tryggir jafnrétti kynjanna. Á Íslandi höfum við náð langt í að tryggja kynfrelsi. Við höfum innleitt aukna mæðravernd og löggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar og tryggir rétt til fóstureyðinga og kynfræðslu í skólum.

En þrátt fyrir að Norðurlöndin hafi í langan tíma tryggt réttinn til fóstureyðinga og aðgengi að getnaðarvörnum þá á það sama ekki við í öðrum löndum. Í flestum löndum og menningarheimum er sett spurningamerki við rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Jafnvel hér í Evrópu er að finna háværa hópa sem eru á móti rétti kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama.

Kynfrelsi þýðir ekki bara að við höfum aðgang að heilsugæslu og upplýsingum um heilsu okkar. Kynfrelsi þýðir einnig frelsi frá hlutgervingu og staðalímyndum í auglýsingum, kvikmyndum, sjónvarpi og opinberum rýmum. Það er í samræmi við reglur Sameinuðu þjóðanna að forðast mismunun kynja í fjölmiðlum. Á síðustu árum hefur fólk farið að ræða meira um þær óeðlilegu líkamsímyndir sem birtast í fjölmiðlum.

Jafnvel innan heilbrigðiskerfisins ríkir ójöfnuður. Enn er það karllíkaminn sem er viðmiðið við rannsóknir á nýjum lyfjum, jafnvel þótt lyf geti valdið mismunandi aukaverkunum hjá konum og körlum. Rannsóknir hafa einnig sýnt að fleiri meðferðarúrræði er að finna gegn sjúkdómum sem karlar þjást af heldur en sjúkdómum sem hrjá konur.

Geðraskanir eru heilbrigðismál sem hrjá bæði karla og konur. Hærra hlutfall kvenna en karla eru með geðröskun. Á undanförnum árum hefur hlutfall kvenna sem glíma við geðraskanir aukist verulega, einkum meðal ungra kvenna. Þær óraunhæfu væntingar um útlit og árangur sem lagðar eru á stelpur og konur í dag leiðir oft til kvíða og getur valdið átröskunum og sjálfskaða. Á sama tíma eru sjálfsvíg algengari meðal karla en kvenna. Karlar eru líka ólíklegri til að leita sér hjálpar þegar þeim líður illa andlega.

Vissir þú að

 • Þegar virkni og aukaverkanir nýrra lyfja eru rannsökuð eru vísindamenn líklegri til að rannsaka áhrif þeirra á karla heldur en konur. T.d. eru konur þátttakendur í aðeins einum þriðja rannsókna á hjartalyfjum í Bandaríkjunum.

Heimild: Mary Horrigan Connors Center for Women‘s Health and Gender Biology, 2014

 • Í Svíþjóð sögðu 9 af hverjum 10 konum á aldrinum 13–30 ára að auglýsingar hafi neikvæð áhrif á þær og valdi því að þær vilji breyta einhverju um sjálfa sig, svo sem þyngd eða útliti. 3 af hverjum 10 ungum körlum sögðu hið sama.

Heimild: Sveriges Kvinnolobby, 2013

 • Þriðja hver stelpa í tíunda bekk er óánægð með líkamsvöxt sinn, en 10% stráka. 40% stelpna í tíunda bekk sagðist vera í megrun 2014, en 15% stráka.

Heimild: HBSC, 2015

 • Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga mælir andlega og líkamlega heilsu. Þegar horft er á niðurstöður frá árunum 2007, 2012 og 2017 sést að konur meta bæði andlega og líkamlega heilsu sína verr en karlar.

Heimild: Embætti landlæknis, 2019

 • Í rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga árið 2017 kemur fram að 28% kvenna og 24% karla á aldrinum 18-44 telja andlega heilsu sína vera sæmilega eða lélega.

Heimild: Embætti landlæknis, 2019

 • 38% stráka í 8.-10. bekk horfa á klám á hverjum degi eða nokkrum sinnum á dag, en 1% stelpna.

Heimild: Rannsókn og greining, 2018

 • Fyrstu niðurstöðurnar úr vísindarannsókn Háskóla Íslands sem nefnist Áfallasaga kvenna sýna að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun. Einnig hefur sama hlutfall verið beitt líkamlegu ofbeldi.

Heimild: Háskóli Íslands, 2019

Umræður

 • Hvers vegna er tíðni geðsjúkdóma meðal ungra kvenna svona há?
 • Hvers vegna leita karlar síður aðstoðar þegar þeim líður illa?
 • Hverjar eru aukaverkanir af getnaðarvarnapillunni? Rannsakið!
 • Hvers vegna er engin getnaðarvarnarpilla til fyrir karla?

Kvikmynd:
Kíkið á fyrirlestur Gail Dines um klám á jafnréttisráðstefnunni Nordisk Forum 2014 hér.

 • Hvað fannst ykkur um hugmyndir Dines um klám?
 • Hvaða áhrif haldið þið að klámneysla hafi á áhorfendur?
 • Hefur klám og klámneysla einhver áhrif á jafnrétti kynjanna?

verkefni

 • Hvað segir Pekingsáttmálinn um heilsu kvenna? Hver ber ábyrgð á að bæta heilsu kvenna?
 • Finnið tíu auglýsingar sem eiga að höfða sérstaklega til kvenna og karla. Hvernig mynd er dregin upp af konum og körlum í auglýsingunum? Hvernig geta svona auglýsingar haft áhrif á konur og karla? Getur þú nefnt aðra miðla þar sem konur eru hlutgerðar? Sjónvarpsþættir, kvikmyndir, tölvuleikir, tónlistarmyndbönd? Er hlutgerving og kynlífsvæðing kvenna í fjölmiðlum vandamál?
 • Veldu atriði úr bíómynd eða sjónvarpsþætti þar sem konan er kynferðislega undirgefin, þar sem hún tekur ekki frumkvæðið. Reyndu að finna atriði þar sem þessu er öfugt farið!

lesa meira

 • Lesið meira um baráttu Sameinuðu þjóðanna fyrir kynfrelsi kvenna hér.
 • Lesið meira um baráttu Alþjóða heilbrigðisstofnunnar fyrir kynfrelsi kvenna hér.
 • Lesið um kynfrelsi á Knúz.is hér.
 • Kíkið á ræðu Maria Johansson um kynfrelsi kvenna með fötlun hér.
 • Kíkið á fyrirlestur Gail Dines um klám hér.
 • Kíkið á síðuna Áfallasaga kvenna hér.