Til þess að lifa sjálfstæðu lífi er nauðsynlegt að hafa lífsviðurværi. Eitt af jafnréttismarkmiðum sem við höfum sett okkur á Íslandi er að konur og karlar hafi sömu tækifæri til menntunar og starfa sem veita fjárhagslegt öryggi.
En þrátt fyrir þessi markmið, þá hafa konur enn færri tækifæri til að öðlast fjárhagslegt sjálfsstæði en karlar. Hluti af ástæðunni er að fleiri konur eru ekki á vinnumarkaðnum eða starfa í hlutastörfum. Hlutastörf eru algeng innan starfgreina þar sem konur eru í meirihluta, eins og hjúkrun, umönnun, hótelstörfum, afgreiðslu og öðrum þjónustustörfum. Í störfum þar sem karlar eru í meirihluta, þá eru hlutastörf ekki eins algeng.
Margar konur starfa í hlutastarfi til að geta einnig sinnt heimilisstörfum og séð um börn. Árið 2014 voru 34% kvenna voru í hlutastarfi hér á Íslandi, en 13% karla. Fólk sem starfar í hlutastarfi hefur lægri tekjur en það sem vinnur fulla vinnu, og ellilífeyrir þeirra er lægri. Meirihluti fátækra ellilífeyrisþega á Norðurlöndum eru konur. Enn í dag er búist við því að konur sem eru að hefja störf á vinnumarkaðnum hafi lægri ellilífeyri en karlar, vegna lægri launa og fjarveru frá vinnu.
Launamunur kynjanna hefur verið í kringum 15% síðustu 20–30 árin. Við eigum enn langt í land að ná launajafnrétti hér á Norðurlöndunum. Konur fá oft lægri laun vegna þess að stjórnendur og vinnuveitendur búast við því að þær muni taka lengra fæðingarorlof en karlar og að þær muni setja börn og fjölskyldu ofar starfsframa.
Konur eru nú í meirihluta þeirra sem stunda háskólanám. En rannsóknir sýna að konur fá enn borgað minna en karlar með sömu menntun. Ein ástæða þessa launamisréttis milli kynjanna er að störf sem konur vinna eru ekki talin eins verðmæt og störf sem karlar vinna, og að starfsgreinar þar sem konur eru í meirihluta ekki eins verðmætar og starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Þessi mismunun á verðmætamati er þannig beitt gegn starfsgreinum, ekki einstaklingum. Þetta þýðir að jafnvel karlar sem starfa innan greina þar sem konur eru í meirihluta hafa lægri laun. Jafnvel þó að hlutfall kvenna á vinnumarkaðnum hafi aukist síðustu árin og vinnutími kvenna hafi lengst, þá hafa hvorki komið til samsvarandi hækkun á launum né samsvarandi fjölgun kvenna í stjórnendastöðum.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2017
Heimild: Háskóli Íslands, 2019
Heimild: Hagstofa Íslands, 2018
Heimild: Alþjóða vinnumálastofnun (ILO), 2019
Heimild: Hagstofa Íslands, 2018
Heimild: Vinnumálastofnun, 2017