Þetta námsefni er ætlað til kennslu á framhaldsskólastigi. Námsefnið byggir á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálanum.

Málefni:

Kvennasáttmálinn & aðgerðaáætlunin frá Peking Konur & fátækt Líkami, kynferði & heilsa Atvinnulífið, launajafnrétti, menntun & starfsframi Ofbeldi gegn konum & stúlkum Umhverfi & loftslag Konur & heilsufar Konur & vopnuð átök Konur við stjórnvölinn Flóttamenn & fólksflutningar Fjölmiðlar & menning Femínismi

8. Konur og vopnuð átök

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1945, í kjölfar skelfilegustu stríðsátaka sem heimurinn hafði upplifað. Hlutverk Sameinuðu þjóðanna er að tryggja frið og öryggi í heiminum. Þrátt fyrir góðar fyrirætlanir þjóða heims, þá geisa stríð og vopnuð átök og fólk býr við ótryggt ástand út um allan heim. Stríðsátök hafa áhrif á bæði konur og karla, en oft á mismunandi hátt. Í sumum stríðum er skipulega ráðist á konur, þeim er nauðgað og þær beittar kynferðislegu ofbeldi til þess að niðurlægja þær og fjölskyldur þeirra og raska samfélagi þeirra. Rannsóknir benda einnig til þess að kynferðislegt ofbeldi eykst almennt á stríðstímum, með auknu ofbeldi innan samfélagsins. Nauðganir, kynferðislegar pyntingar, ófrjósemisaðgerðir, neyddar fóstureyðingar og afskræming á kynfærum eru sumar þeirra ógna sem konur standa frammi fyrir í stríðsátökum, sem og á friðartímum. Jafnvel þó að stríðsátök hafi gífurleg áhrif á líf og velferð kvenna, líkt og karla, fá konur sjaldan tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku, hvort sem er í aðdraganda stríðs eða í friðarviðræðum. Konur fá sjaldan að taka þátt í friðarviðræðum, eða í umræðu um hvernig samfélagið skuli byggt upp á ný þegar stríðinu er lokið. Öryggismál hafa lengi verið talin heimur karlanna.

Árið 2000 héldu Sameinuðu þjóðirnar fyrsta fund sinn til að athuga hvernig staðið hefði verið við framkvæmdaráætlun Pekingsáttmálans 1995. Þá strax varð ljóst að þjóðir heims hefðu gert lítið til að uppfylla skuldbindingar sínar í kaflanum um „Konur og vopnuð átök“. Í kjölfarið unnu kvennasamtök og friðarsamtök út um allan heim að því að tryggja réttindi kvenna í vopnuðum átökum. Þetta starf leyddi til þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna skrifaði undir sérstaka ályktun, ályktun nr. 1325 um konur, frið og öryggismál, sem var fyrsta formlega ályktunin sem skuldbindur þjóðir heims og aðra aðila sem heyja stríð til að virða réttindi kvenna og að tryggja konum sæti við borðið í friðarviðræðum og uppbyggingu samfélags þegar friði hefur verið náð. Ályktunin dregur athyglina að því hvaða áhrif stríð hefur á konur, en fjallar þó að mestu leyti um mikilvægi þess að fá konur til að taka þátt í friðarviðræðum og uppbyggingu eftir stríðsátök.

Í kjölfar ályktunar nr. 1325 hefur öryggisráð Sameinu þjóðanna samþykkt fjölda ályktana sem þróa áfram og skýra skyldur þjóða heims til að tryggja öryggi og frið kvenna. Ályktun nr. 1820 fjallar t.d. um hvernig konur verða sérstaklega fyrir kynferðislegu ofbeldi á stríðstímum. Þrátt fyrir að þessi ályktun þýði að kynferðislegt ofbeldi sé nú formlega álitið sem hernaðarverkfæri, stríðsglæpur, og í sumum tilvikum brot gegn mannkyni og þjóðarmorð, þá sleppa enn gerendur þessara glæpa án refsingar.

Enn er mikið starf óunnið til að tryggja konum heims ákvörðunarrétt yfir eigin lífi. Ofbeldi gegn konum á stríðstímum hefur einnig áhrif á konur á friðartímum. Margir femínistar skilgreina frið og öryggi sem samfélag sem er réttlátt, er byggt á jafnrétti, og er frjálst frá mismunun og ofbeldi gegn konum og stúlkum. Sjálfbær og varanlegur friður næst þegar lífsgæði nægja til að fólk geti lifað með virðingu, frjálst frá erfiðleikum og ótta.

verkefni

  • Deilið bekknum í smærri hópa og veljið ykkur stríð eða átök sem eiga sér stað í dag eða eru nýliðin. Leitið upp tölfræði og reynið að komast að því hvaða áhrif þessi átök hafa haft á konur sérstaklega, athugið hverjir tóku þátt í friðarviðræðum, o.s.frv. Lesið ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Voru friðarviðræðurnar framkvæmdar undir formerkjum ályktunarinnar?
  • Athugið hve margar konur og karlar tóku þátt í friðarviðræðum sem áttu sér stað milli 1992 og 2011. Veltið fyrir ykkur hvað tölfræðin sýnir. Ræðið eða skrifið svör við eftirfarandi spurningum: Hvað er það sem er ákveðið í friðarviðræðum? Af hverju er það mikilvægt að konur taki þátt í friðarviðræðum? Athugið hve margar friðarviðræður sem áttu sér stað milli 1990 og 2010 minnast á stöðu kvenna eða jafnrétti kynjanna. Veltið fyrir ykkur af hverju það er mikilvægt að friðarsamningar fjalli einnig um konur og jafnrétti kynjanna. Tölfræði er hægt að finna á vefsíðu samtakanna Peace.

Verkefni: „Öryggisgönguferðin“

Efni:

Merkimiðar fyrir þátttakendur með persónum sem þeir leika, og miðar fyrir stjórnanda með staðhæfingum. Færið stóla og borð til svo að nóg pláss sé fyrir þátttakendur á gólfinu.

Framkvæmd:

Klippið út merkimiðana og dreifið meðal þátttakenda. Þeir vita hvaða persónur þeir leika en mega ekki segja öðrum frá því. Þátttakendur standa á miðju gólfi. Stjórnandinn les upp staðhæfingarnar sem fjalla um öryggi og frið, og þátttakendur meta það hvort að þær eigi við persónuna sem þeir leika. Ef þátttakandi er sammála staðhæfingunum tekur hann skref áfram, annars skref afturábak. Þetta þýðir að þátttakendur sem finnst að þeirra persóna sé örugg endar uppi fremst, en aðrir aftast. Stjórnandinn velur hversu margar staðhæfingar eru lesnar upp. Þátttakendur eru beðnir um að standa áfram á staðnum sem þeir enduðu uppi. Staðsetning þeirra er táknmynd þess hve öruggir þeim finnst þeir vera. Hver þátttakandi segir hópnum hvað þeim fannst um staðhæfingarnar, og hvað þeim finnst um staðsetningu þeirra. Það er gott að spyrja eina manneskju í einu, svo að allir geti fengið tækifæri til að hlusta hvert á annað. (Til að þátttakendur muni hvaða staðhæfingar voru lesnar upp, er gott að lesa ekki alltof margar áður en lestrinum lýkur. Einnig er hægt að taka stutta pásu, spyrja fólk um staðsetningu þeirra, og halda svo áfram.)

Úrvinnsla

Hvað fannst þér? Hvernig leið þér? Af hverju stendur þú þar sem þú stendur? Hvaða staðhæfingar finnst þér að eigi við persónuna þína? Af hverju? Hvaða staðhæfingar eiga ekki við persónuna þína? Af hverju ekki? Heldurðu að þú hefðir endað á öðrum stað með aðra persónu? Farið lengra? Styttra? Í lok spurninganna er hægt að ræða meira um öryggi. Hvaða persónur haldið þið að séu „öruggastar“? Af hverju? Hverjir eru „óöruggastir“? Af hverju?

Persónur

  • Karl, hermaður í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna, hefur verið í Afganistan í 12 mánuði
  • Kona, bandarísk, býr í Texas
  • Karl, 17 ára, norskur ríkisborgari
  • Karl, 17 ára, bandarískur ríkisborgari
  • Kona, hermaður í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna, hefur verið í Afganistan í 12 mánuði
  • Kona, 17 ára, palestínsk, vinnur í Ísrael
  • Karl, verkstjóri fyrir Eimskip í Kína
  • Karl, af suður-evrópskum uppruna, á ferðalagi um Evrópu
  • Karl, af suður-evrópskum uppruna, á ferðalagi um Bandaríkin
  • Karl, verkefnastjóri í flutningafyrirtæki í Balkanríkjunum síðustu 24 mánuði
  • Karl, flóttamaður frá Írak
  • Kona, starfar að réttindum kvenna í Gaza
  • Karl, smyglar flóttafólki milli Norður-Afríku og Ítalíu
  • Kona, stjórnmálamaður

Staðhæfingar:

Passa þessar staðhæfingar við persónuna þína?

  • Ég sef vel á næturnar
  • Mér finnst ég vera örugg/ur í nærumhverfi mínu
  • Ég er ekki hrædd/ur við að fara út þegar kvöldar
  • Ég hef ekki áhyggjur af því að fá ekki að borða í dag
  • Ég hef ekki áhyggjur af því að sprengja muni springa í hverfinu mínu
  • Ég get tjáð mig eins og ég vil, bæði í rituðu máli og tali
  • Hryðjuverk koma mér ekki við
  • Það er enginn staður í borginni minni sem mér líður eins og ég sé óörugg/ur
  • Ég er fullviss um kynfrelsi mitt
  • Ég er fullviss að ef ég tilkynnti glæp, myndi ákæra mín vera virt
  • Ég kemst til læknis ef ég verð veik/ur
  • Ég hef ekki áhyggjur af því að ég eða vinir mínir og fjölskylda muni lenda í stríðsátökum
  • Ég hef ekki áhyggjur af því að vera áreitt/ur á vinnustað, á heimili eða á almannafæri
  • Ég tel ekki að frelsi mitt sé skert af ótta (við að eitthvað gerist…)
  • Hversdagslíf mitt er að mestu leyti vandamálalaust
  • Ég þarf ekki að ritskoða persónuleika minn, ég get hagað mér og tjáð mig eins og ég vil
  • Lögreglan er hér til að vernda mig
  • Ég er ekki bundin/n af samfélags- eða lagalegum höftum í klæðaburði

lesa meira

  • Lesið meira um áætlun íslenska ríkisins fyrir friði og öryggi kvenna hér.
  • Lesið meira um starf UN Women fyrir friði og öryggi kvenna hér.
  • Lesið meira um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 hér.
  • Lesið á íslensku frásagnir kvenna sem hafa lent í stríði hér.