Fjölmiðlar og menning eru hluti af daglegu lífi okkar og hefur áhrif á það hvernig við lítum á sjálf okkur og umhverfi okkar. Fréttaflutningur og lesendabréf eru grundvöllur á því hvernig við skiljum samfélag okkar og hvernig við skiljum atburðina sem eiga sér stað í samfélaginu. Það er þess vegna mjög mikilvægt að fjölmiðlar segi sögur af öllum þátttakendum í samfélagi okkar, að raddir okkar allra fái að heyrast og andlit okkar allra fái að sjást.
Birtingarmyndir kynjanna sem við sjáum í afþreyingarmenningunni eru oft staðlaðar og styðja við gamaldags hugmyndir um konur og karla. Karlar eru oft sýnir sem sterkir, færir, leiðtogar, stjórnmálamenn, hetjur eða glæpamenn, þ.e.a.s. sem gerendur sögunnar. Á sama tíma eru konur sýndar sem fallegar, kynþokkafullar, sem eiginkonur, mæður eða fórnarlömb, þ.e.a.s. sem þolendur sögunnar. Þessar staðalímyndir er hægt að finna í öllum miðlum, svo sem kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum. Hugmyndir kvenna, hvað konur afreka og hvað þær gera fær oft minna vægi, og með því að leggja ofuráherslu á líkama og útlit, þá eru konur oft smættaðar niður í hlutgervingu kvenleika og kynþokka.
Jöfn þátttaka og jöfn framsetning kvenna í fjölmiðlun eru bráðnauðsynlegar lýðræðislegri umræðu. Konur eru ennþá minna sýnilegri í fjölmiðlum en karlar, og hlutfall kvenna og karla í fjölmiðlum og menningu hefur lítið breyst síðustu 20 árin þrátt fyriir að Pekingáætlunin leggi sérstaka áherslu á mikilvægi þess að breyta því. Rannsóknir sýna að konur eru aðeins 30% viðmælenda í fjölmiðlum. Karlar segja enn fréttir um aðra karla. Karlmenn eru fjölmennari í hópi sérfræðinga og álitsgjafa, á meðan konur eru fjölmennari sem fulltrúar almennings.
Aðrar staðalímyndir eru algengar í fjölmiðlum og í menningunni. Gamalt fólk er oft sýnt sem óhæft eða rætt um það sem vandamál sem þarf að leysa. Fólk með fötlun sést sjaldan og þegar það birtist á skjánum eða á síðum dagblaðanna er það aðallega til þess að fjalla um fötlun sína. Og oft er rætt um konur af öðrum litarhætti en hvítum á þann veg að mætti túlka sem rasisma eða sexisma, orð eru notuð um þær eins og „villtar“ eða „framandi“. Fjölmiðlar og menning birtir á hverjum degi sýn á veröldina sem byggir á misrétti og þessar birtingamyndir hindra framgang jafnréttis í samfélaginu okkar.
Mikil gróska er í fjölmiðlaumhverfi nútímans og ný tækni hefur breytt því hvernig við miðlum og meðtökum fréttir. Fólk getur nú skapað eigin miðla og skrifað og bloggað um málefni sem standa því nærri hjarta. Samfélagsmiðlar gefa almenningi tækifæri til að láta rödd sína heyrast og taka þátt í samfélagsumræðunni. Þetta þýðir aukin tækifæri fyrir að bæta framsetningu kvenna í fjölmiðlum og fjölga sögum sem byggðar eru á reynslu kvenna og sjónarhorni. Á sama tíma er mikið verk framundan að tryggja það að konur geti tekið þátt í opinberum samræðum á sama máta og karlar. Síðasta áratuginn hefur sífellt meira borið á því að konur sem skrifa á veraldarvefnum og taka þátt í umræðu á samfélagsmiðlum, á bloggsíðum og öðrum svæðum á netinu þurfa að þola áreitni og ofsóknir. Konur sem gegna opinberum embættum þurfa að þola hatursfullan munnsöfnuð og jafnvel hótanir um ofbeldi í mun meira mæli en karlar.
Önnur þróun í samfélagi okkar sem hefur fylgt í kjölfar netvæðingar og tækniframþróunar er aukið framboð á klámi. Fyrir ekki allt of löngu síðan þurfti fólk sem vildi neyta kláms að leita til sérstakra búða eða kaupa það í póstsendingu. Í dag er auðvelt aðgengi að klámi, og hægt er að hlaða niður klámi í símann sinn eða tölvuna sína hvenær sem er sólarhringsins. Á sama tíma hefur klám orðið ofbeldisfullra, og ofbeldi gegn konum og niðurlæging kvenna hefur verið normaliserað. Klám birtir afskræmda mynd af kynlífi og sýnir ofbeldi gegn og misnotkun á stúlkum og konum á örvandi máta. Þetta er kynbundið vandamál sem hefur áhrif bæði á einstaklinga og samfélagið allt. Við tölum stundum um „klámvæðingu“ samfélagsins, og þá eigum við þau áhrif sem ímyndir sem birtast í klámi hafa haft á tónlist, auglýsingar, sjónvarpsþætti og kvikmyndir.
Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt margar framkvæmdaáætlanir og ályktanir sem staðhæfa að kynlífsstaðalímyndir hindri jafnrétti kynjanna. Bæði kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Pekingáætlunin segja skýrt að ríki eru skuldbundin til að berjast gegn staðalímyndum kvenna og karla.
Árið 2005 voru hlutfall kvenna í íslenskum sjónarpsauglýsingum 30%. Karlar voru í meirihluta allra hlutverka auglýsinganna nema sem fyrirsætur, en þar voru konur 85%.
Heimild: Menntamálaráðuneytið, 2005
Á árunum 2014-2015 var heildarhlutfall milli kynja sem viðmælendur í fréttum 70% karlar og 30% konur.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2019
Karlar eru oftar til umfjöllunar í fréttum tengdum íþróttum og konur í fréttum tengdum fræga fólkinu.
Heimild: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2010
Konur eru einungis 7% íþróttafólks sem fjallað er um í íþróttafréttum og 4% íþróttaumfjöllunnar snýst aðeins um konur samkvæmt könnun UNESCO árið 2018.
Heimild: UNESCO, 2019
Samkvæmt Hagstofu Íslands hafa 191 íslensk leiknar kvikmyndir verið frumsýndar hér á landi. Karlar hafa leikstýrt 169 af þeim en konur aðeins 25.
Heimild: Hagstofa Íslands, 2018
87% af fjármagni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fór í styrki til karla á árunum 2000–2012.
Heimild: Háskóli Íslands, 2012
Töluvert færri konur en karlar sækja um styrki hjá Kvikmyndasjóði Íslands, hins vegar er árangurshlutfall þeirra hærra en hjá körlum. Til að mynda sóttu 44 karlkyns leikstjórar um framleiðslustyrki en fengu 23 úthlutanir, 18 kvenkyns leikstjórar sóttu um framleiðslustyrki en fengu 13 úthlutanir.
Heimild: Kvikmyndamiðstöð Íslands, 2018
Árið 2019 stóðust 5 myndir af þeim 8 sem tilnefndar voru til Óskarsverðlaunanna sem besta mynd ársins hið svokallaða Bechdel próf. Mynd telst hafa staðist Bechdel prófið þegar í kvikmyndinni er að finna a) tvær nafngreindar konur, b) sem tala hvor við aðra, c) um eitthvað annað en karla.
Heimild: Bechdel test, 2019
Konur voru 6% tónlistarflytjenda á Þjóðhátíð í Eyjum 2018.
Heimild: Dalurinn.is, 2019
Árið 2013 var Rás 1 eina útvarpsstöðin þar sem konur voru í meirihluta allra þáttargerðamanna. Á Rás 2 voru 11 konur í þáttagerð en 33 karlar, á FM957 voru 2 konur og 11 karlar sem störfuðu við þáttagerð.
Heimild: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2013
Segja fréttir á sama máta frá konum og körlum? Safnið dagblöðum í eina viku. Deilið nemendum í minni hópa og látið hvern nemanda lesa eitt blað vandlega og merkja við hve margir karlar og hve margar konur sjást á myndum. Takið allt myndefni til greina, þ.e. bæði fréttamyndir, auglýsingar, myndir með lesendabréfum, o.s.frv. Svarið eftirfarandi spurningum innan hópanna:
Hve margir karlmenn sáust á myndum? Hve margar konur?
Í hvaða flokkum eru flestir karlar?
Í hvaða flokkum eru flestar konur?
Af hverju haldið þið að svo sé?
Sáuð þið manneskju með fötlun?
Hversu margar manneskjur á myndum sem teknar eru á Íslandi voru af erlendum uppruna?
Endurspegla myndirnar í blaðinu íslenskan veruleika?
Veljið nokkrar myndir af körlum og konum:
Er þessi manneskja nafngreind? Er einhver kynjamunur þar á?
Hvað er manneskjan að gera á myndinni? Er hún aktíf eða passíf? Er manneskjan í stellingu fyrir myndavélina? Hvert horfir hún? Á áhorfandann? Út í loftið? Niður á við? Á einhvern annan í myndinni?) Er einhver kynjamunur þar á?
Er manneskjan sett fram sem gerandi eða þolandi? Er einhver kynjamunur þar á?
Athugið birtingarmyndir kvenna og karla í fréttunum. Hver er bakgrunnurinn þegar tekið er viðtal við þau? Hve stórar eru myndirnar af þeim? Er einhver munur á milli kynjanna? Ef svo, hvaða bakgrunnur er tengdur völdum? Sýna myndirnar konur og karla á mismunandi máta í sama umhverfi? Til dæmis, er einhver munur á því hvernig íþróttamenn og íþróttakonur eru sýnd? Ef svo, hver er munurinn? Í hvaða samhengi sjást konur og karlar? Hvað fjallar fréttin um þegar karlar eru sýndir og hvað fjallar hún um þegar konur eru sýndar? Sérðu eitthvað mynstur? Berðu til dæmis saman fréttir af fjármálum við réttir af menningarmálum, hvar eru flestar konurnar?
Athugið umfjöllun og viðtöl við konur og karla í dagblöðum og vikublöðum. Hvernig eru konur og karlar sýnd? Er einhver munur? Væri hægt að skipta kynunum? Myndi þessi karl vera ljósmyndaður á sama máta og tekið viðtal við hann á sama máta og þessi kona? Hvaða ímynd er sköpuð af körlum og konum í viðtölunum? Hvaða áhrif getur það haft?
Deilið nemendum í pör. Biðjið þá um að velja kvikmynd sem þeir hafa báðir séð og hugsa um hvernig konur og karlar eru sett fram í myndinni. Hvað fókuserar myndavélin á þegar kvikmyndin sýnir karla/konur? Hver er í aðalhlutverki? Hver er í aukahlutverki? Tengja við „Bechdel prófið“. Reynið að finna kvikmyndir sem uppfylla Bechdel prófið og berið þessar myndir saman við myndir sem ekki uppfylla prófið. Lærið meira um Bechdel prófið hér hér.
Finnið 20 vinsælustu kvikmyndirnar í dag. Hversu margar voru leikstýrðar af konum og hversu margar af körlum? Hversu margar hafa konur í aðalhlutverki og hversu margar karla? Hvaða áhrif heldur þú að það hafi á áhorfandann að hafa kvenleikstjóra eða karlleikstjóra, handritahöfund, aðalsöguhetju?
Veljið kvikmynd. Hvernig myndi hún breytast ef við skiptum um kyn aðalsöguhetjanna?
Í Svíþjóð er ólöglegt að birta auglýsingar sem mismuna kynjunum. Ræðið: Á að banna auglýsingar sem mismuna kynjunum á Íslandi?