Þetta námsefni er ætlað til kennslu á framhaldsskólastigi. Námsefnið byggir á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálanum.

Málefni:

Kvennasáttmálinn & aðgerðaáætlunin frá Peking Konur & fátækt Líkami, kynferði & heilsa Atvinnulífið, launajafnrétti, menntun & starfsframi Ofbeldi gegn konum & stúlkum Umhverfi & loftslag Konur & heilsufar Konur & vopnuð átök Konur við stjórnvölinn Flóttamenn & fólksflutningar Fjölmiðlar & menning Femínismi

Fyrir kennara

Þetta námsefni fjallar um réttindi kvenna. Bæði á Íslandi sem og í heiminum öllum er brotið á konum og stúlkum og þó að við séum komin langt á Norðurlöndunum erum við enn langt frá því að hafa náð fram jafnrétti kynjanna. Efninu er ætlað að auka skilning á réttindum kvenna, og hvetja til aukinnar skuldbindingar okkar til að bæta lífskjör kvenna og stúlkna.

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður 1979, og árið 1995 var samþykkt aðgerðaráætlun á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Lítil þekking er meðal almennings á þessum tveimur grundvallarsáttmálum um jafnrétti kynjanna. Þessu efni er ætlað að ráða bót á því. Með því að auka þekkingu á stöðu kynjanna og réttindum sem konum og körlum eru tryggð, getum við í sameiningu gert samfélagið jafnara. Við vonum að þetta efni muni stuðla að aukinni þekkingu, umræðu og þátttöku í jafnréttisbaráttunni.

Kvenréttindafélag Íslands

Kvinderaadet, Danmark

Sveriges Kvinnolobby

 

Um efnið

Í þessu efni má finna grunnupplýsingar um Sameinuðu þjóðirnar, Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1979, og Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Peking 1995.

Efninu er skipt niður eftir áherslusviðum. Hvert þema inniheldur staðreyndir með helstu upplýsingum og tölfræði, auk æfinga sem miða að því að vekja upp umræður og þátttöku um málefnið.

Þú ákveður hvernig þú vilt vinna með þetta efni. Þú getur notað hluta fræðsluefnisins og æfinganna í stökum kennslustundum. Þú getur einnig valið að vinna með efnið á ákveðnum þemadögum.

Sérhver kafli (kennslustund) hefst á því að kennarinn les inngangstexta. Þú getur síðan valið þær æfingar sem henta best fyrir viðkomandi hóp, sleppt öðrum og mótað eigin spurningar/æfingar byggðar á umræðum sem spretta upp í kennslustundinni. Hver kafli inniheldur svo ýmsar krækjur á lesefni til að dýpka þekkinguna enn frekar.

Efnið er hægt að nota í kennslu námsgreina eins samfélagsfræði, sögu, íslensku og annarri tungumálakennslu. En efnið er einnig hægt að nota kennslu í öðrum fögum, eins og t.d. stærðfræði. Af hverju ekki að leyfa börnunum að reikna launamun eða muninn á vistfræðilegum fótsporum kvenna og karla? Efnið er þverfaglegt, og kjörið er ræða um innleiða umræðu um kynjajafnrétti í sem flestum fögum!

Jafnrétti í aðalnámsskrá

Menntastefnan sem birt er í aðalnámskrá framhaldsskólanna er reist á sex grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, og sköpun. Hugmyndirnar að baki þessum grunnþáttum eiga að endurspeglast í öllu skólastarfinu, svo sem við efnisval og inntak náms, kennslu og leiks, í starfsháttum og aðferðafræði kennslu, vinnubrögðum kennara og annarra, og mat á skólastarfi.

Námsskráin lýsir markmiði jafnréttismenntunar sem svo: „að skapa öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi, jafnframt því að allir séu virkir þátttakendur í að skapa samfélag jafnræðis, jafnréttis og réttlætis. Menntun til jafnréttis fjallar um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Við undirbúning framtíðarstarfsvettvangs er mikilvægt að opna augun fyrir kynskiptum vinnumarkaði og stuðla að því að námsval kynjanna verði minna kynbundið en hingað til. Það varðar miklu að ekki halli á kynin í þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við heldur grundvallist þau á jafnræði og jafnrétti.“

Í þessu námsefni eru kvenréttindi og jafnréttindi kynjanna sett í samhengi við lýðræði og mannréttindi út um allan heim. Jafnrétti á Íslandi er sett í alþjóðlegt samhengi, og því lýst hvernig félagslegar og pólitískar ákvarðanir sem teknar eru fjarri okkur geta haft áhrif á nærumhverfi nemandans.

Hægt er lesa aðalnámskrá framhaldsskólanna hér.